Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   7. ágúst 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 33. ţáttur

Íslenskt mál - 33. þáttur

Örnólfur Thorlacius, fyrrverandi rektor, telur að orðasambandið ganga erinda e-s sé oft ranglega notað í nútímamáli.

Hann segir að Magnús heitinn Finnbogason, íslenskukennari, hafi talið að menn gætu aðeins gengið erinda sinna en ekki annarra. Umsjónarmaður er fyllilega sammála Örnólfi og telur að Magnús Finnbogason hafi haft rétt fyrir sér.

Orðasamböndin ganga erinda sinna og ganga örna sinna (örna, ef.flt. af erindi) eru gömul í íslensku og vísa þau til þess er menn hægja sér til baksins.

Orðasambandið reka erindi e-s er einnig gamalt í íslensku. Í Íslensku hómilíubókinni (frá um 1200) er t.d. að finna dæmið reka erindi Guðs og Jón biskup Vídalín talar um að reka erindi andskotans. Þá munu margir kannast við málsháttinn Úlfur rekur/(etur) annars erindi ‘hver er sjálfum sér næstur’ en hann er að finna í Flærðarsennu Hallgríms Péturssonar, Laxdæla sögu og víðar.

Það er því í alla staði eðlilegt að tala um að einhver reki erindi tiltekins fyrirtækis í merkingunni ‘vinni að hagsmunum þess’ en notkun orðasambandsins ?ganga erinda e-s (annarra, stórveldis, tiltekins fyrirtækis ...) er nýmæli frá miðri 20. öld sem styðst ekki við málvenju.

Hér er augljóslega um það að ræða að menn rugla saman tveimur orðasamböndum, ganga erinda/örna sinna og reka erindi e-s. Ruglingur þessi er afkáralegur þar sem merking orðasambandanna tveggja er gjörólík. Magnús heitinn Finnbogason hafði á réttu að standa; menn skyldu láta sér nægja að ganga erinda sinna í hefðbundinni merkingu en þeir sem það kjósa reka erindi einhvers/annarra.

Auglýsendur hafa gaman af að leika sér að merkingu orða en tekst það misvel eins og við er að búast. Umsjónarmaður man vel eftir auglýsingu sem hljóðaði svo: Ikea - fyrir alla muni.

Þetta þykir umsjónarmanni snjallt. Orðasambandið fyrir alla muni merkir venjulega ‘umfram allt’ en í bókstaflegri merkingu má skilja það ‘til að fá/kaupa alla hluti’. Annað dæmi um eftirminnilega auglýsingu var áletrun sem lesa mátti á sorpbílum Reykvíkinga: Láttu þitt ekki eftir liggja. Þetta má auðvitað skilja með tvennum hætti: ‘Leggðu þitt af mörkum til að halda borginni hreinni’ og ‘láttu ekki rusl liggja eftir þig’.

Að undanförnu hafa Landflutningar-Samskip auglýst talsvert í blöðum og sjónvarpi. Auglýsingin hljóðar svo: Allur matur / á að fara / ... [...] / ... upp í munn / og ofan í maga! Undir þetta er síðan ritað: Tökum það með trukki.

Meginhluti auglýsingarinnar virðist vera í bundnu mál en óhætt mun að segja að hér sé ekki dýrt kveðið. Um efni boðskaparins eða innihald er best að hver dæmi fyrir sig en auðvitað er ágætt að fá að vita hvert allur matur á að fara. Í undirskriftinni felst orðaleikur, stofnorðið í fsl. með trukki getur hvort sem er verið þgf.et. af karlkyns no. trukkur (< e. truck < truckle wheel) eða hvorugkyns nafnorðinu trukk (< d. tryk).

Orðasambandið taka e-ð með trukki er að vísu talmálskennt og því ekki til fyrirmyndar en umsjónarmanni virðist þó að orðaleikurinn kunni að réttlæta notkun þess í þessu samhengi.

Einhvers staðar sá umsjónarmaður mynd af brotinni flösku og neðst á myndinni var skrifað: Flaskaðu ekki á þessu.

Vísanin var sú að menn skyldu ganga vel um (landið) og skilja hvorki eftir sig flöskur né annað rusl. Ófróður lesandi gæti freistast til að tengja saman kvenkyns nafnorðið flaska og orðasambandið flaska á e-u ‘steyta/stranda á e-u’ > ‘verða á mistök; skjátlast’, t.d.: flaska á spurningu ‘geta ekki svarað spurningu’.

Þessi tvö orð eiga þó ekkert sameiginlegt nema það að þeim svipar hvoru til annars að búningi. Uppruni sagnarinnar flaska er ekki augljós. Prófessor Halldór heitinn Halldórsson taldi að flaska merkti hér ‘klofna’, sbr. flaska á skeri ‘klofna’ og Ásgeir Blöndal Magnússon tilgreinir merkinguna ‘klofna úr’.

Í íslensku eru orð og orðasambönd mun gagnsærri og auðskildari en í flestum nágrannatungunum. Þetta einkenni er eitt af mörgu sem eflir tengsl nútímans við söguna og er til þess fallið að efla málkennd og málskilning. Umsjónarmaður telur orka tvímælis að leika sér að orðum á röngum forsendum eins og gert er þegar no. flaska og sagnorðið flaska eru spyrt saman.

Eitt þeirra nýmæla sem nýtur vinsælda á Íslandi um þessar mundir er nafnorðið pakki (tökuorð úr dönsku, 17. öld). Það er notað í ýmsum samböndum í mismunandi merkingu og með óljósri vísan að því er umsjónarmanni virðist. Þannig er vinsælt að bjóða upp á allan pakkann, t.d. um nám eða ferðalög.

Í viðtali við ungan mann sem hafði lent á refilstigum eiturlyfja komst hann svo að orði að hann hefði tekið allan pakkann, þ.e. neytt allra tegunda fíkniefna, og Landssíminn auglýsir: Allur pakkinn, hvað sem það nú er.

Sumum kann að þykja heppilegt að geta gripið til orðs sem getur merkt nánast hvað sem er en aðrir munu halda því fram að slíkt leiði til óskýrleika. Þetta nýmæli, öllu heldur merkingin, á rætur sínar í ensku þar sem talað er um in full package deal ‘a set of proposals or items offered or agreed to as a whole’, sbr. enn fremur pakkaferðir ‘package tour’.

Íslenska breytist vitaskuld og stöðugt bætast við ný orð, orðasambönd og merkingar. Orðasambandið allur pakkinn verður ekki talið rangt en ofnotkun getur verið fremur hvimleið og einnig beinar þýðingar. Aðalatriðið er þó trúlega að nýmæli falli vel að málkerfinu. Enn fremur telur umsjónarmaður mikilvægt að sem flestum málnotendum sé ljóst hver uppruni nýjunga er. Því er hér vakin athygli á nýmælinu allur pakkinn.

Úr handraðanum

Í Eyrbyggja sögu (4. k.) segir frá því að svo mikil helgi hafi verið á Þórsnesi að Þórólfur Mostrarskegg hafi með engu móti viljað láta saurga völlinn „hvorki í heiftarblóði, og eigi skyldi þar álfrek ganga (‘ganga örna sinna’), og var haft til þess sker eitt, er Dritsker var kallað“ (stafsetningu breytt til nútímamáls).

Í 9. kafla segir: „Það var eitt vor á Þórsnessþingi, að þeir mágar, Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir á Eyri, gerðu orð á, að þeir myndi eigi leggja drag undir (‘ýta undir’) ofmetnað Þórsnesinga, og það, að þeir myndi ganga þar örna sinna sem annars staðar á mannfundum á grasi, þótt þeir væri svo stols (‘stoltir’), að þeir gerði lönd sín helgari en aðrar jarðir í Breiðafirði; lýstu þeir þá yfir því, að þeir myndi eigi troða skó til að ganga þar í útsker til álfreka„.

Sá ágreiningur er hér er lýst leiddi til bardaga og mannfalls eins og lesa má í sögunni. Lesendur þurfa ekki að velkjast í vafa um merkingu orðatiltækjanna ganga örna sinna og ganga álfrek (nafnorðið álfrek er dregið af nafnorðinu álfur og sögninni reka, þ.e. menn hafa trúað að það að ganga örna sinna hafi fælt álfa og landvættir).

Morgunblaðið, 7. ágúst 2004