Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   21. ágúst 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 34. ţáttur

Íslenskt mál - 34. þáttur

Það fylgir því talsverð ábyrgð að rita í dagblöð og koma fram í útvarpi og sjónvarpi.

Þetta á ekki síst við þegar fjallað er um vinsælt efni eins og knattspyrnu. Því læra börnin málið, að það er fyrir þeim haft segir málshátturinn og einnig: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Umsjónarmanni finnst eðlilegt að stjórnendur útvarps og sjónvarps geri þá kröfu til stjórnenda íþróttaþátta að þeir geti tjáð sig með þeim hætti sem samræmist málvenju og sömu kröfu ættu ábyrgðarmenn íþróttaþátta að gera til þeirra sem fengnir eru til að fjalla um íþróttir. Umsjónarmanni virðist að því miður hafi orðið talsverður misbrestur á þessu ef marka má lýsingar á leikjum í Evrópukeppninni í knattspyrnu.

Í þessum pistlum hefur áður verið vikið að misnotkun svo kallaðs dvalarhorfs, orðasambandsins vera að gera eithvað. Það mætti æra óstöðugan að reyna að rekja alla þá vitleysu sem veltur upp úr knattspyrnufræðingunum okkar af þessum toga. Það verður enda ekki reynt en nokkur dæmi skulu nefnd (spurningarmerki (?) fyrir framan dæmin vísar til þess að umsjónarmaður telur þau brjóta í bág við málvenju):

 • ?þeir eru ekki að halda boltanum nógu vel
 • ?þeir eru að fá góð færi sem þeir eru ekki að nýta nógu vel
 • ?þeim er örugglega ekkert að líða vel þegar aðeins 20 mínútur eru eftir
 • ?hann er ekki að komast í sitt hlutverk
 • ?Vörnin var ekki að gera sig í leiknum
 • ?hann er greinilega ekki að hitta boltann nógu vel
 • ?þeir eru að hnippa í hvern annan ('hver í annan') og hrinda hverjum öðrum ('hver öðrum')

Umsjónarmaður veit ekki hvort knattspyrnumenn tala svona í sinn hóp enda kemur honum það ekkert við. Málið horfir hins vegar öðruvísi við þegar um er að ræða opinberan vettvang, ríkisfjölmiðlana. Áhrifamáttur þeirra er mikill og því verður að vanda til þess í hvívetna sem þar er borið fram.

Ofnotkun orðasambandsins vera að gera e-ð er afar algeng í lýsingum á knattleikjum hvers konar og nú er svo komið að áhrifanna er tekið að gæta víða. Kunningi umsjónarmanns hafði það nýlega á orði hann hefði staðið sig að því að nota þessi ósköp eins og hann orðaði það.

Umsjónarmaður hefur fylgst með hluta nokkurra þeirra leikja sem sýndir hafa verið í sjónvarpinu og því er ekki að neita að honum blöskrar margt sem einkum viðmælendur stjórnenda láta sér um munn fara. Hér skulu nefnd þrjú dæmi.

 • Venja er að tala um að markvörður verji skot eða hafi hendur á knettinum. Í sjónvarpinu 23. júní var hins vegar sagt: ?Kahn setur bara líkamann á bak við boltann. - Ekki er öll vitleysan eins.

 • Öðru sinni var sagt: ?Kannski þjálfaranum takist að blása sínum mönnum kappi í kinn í leikhléinu. Venja er að tala um að mönnum hlaupi kapp í kinn er þeim hitnar í hamsi (af ákafa) og einnig er algengt að blása mönnum einhverju í brjóst. Einnig er alkunna að það getur verið nauðsynlegt að telja kjark í menn eða brýna/hvetja þá til dáða. Það er hins vegar nýtt að unnt sé að ?blása mönnum kappi í kinn.

 • Þriðja dæmið er svolítið flóknara en hin. Algengt er að menn fylgi e-u eftir, t.d. góðum sigri eða marki. Þar er merkingin auðvitað allt önnur en fylgja á eftir (e-m/e-u) í merkingunni 'koma á eftir'. Menn geta t.d. sagt: Maðurinn fór á undan mér inn í hellinn en ég fylgdi á eftir. Eins og sjá má vísar orðasambandið á eftir til raðar, reyndar ýmist í tíma eða rúmi. Orðasambandið fylgja e-u eftir hefur hins vegar allt aðra merkingu. Umsjónarmaður hefur mörg dæmi um að þessu tvennu - fylgja e-u eftir og fylgja á eftir (e-u) - sé ruglað saman í talmáli.

Orðasambandið brenna (e-u) af er fengið úr dönsku (brænde af) og er það notað í tvenns konar merkingu í íslensku:

 • brenna (skoti) af byssu 'hleypa skoti af byssu'
 • brenna af (úr vítaspyrnu) 'skjóta (knettinum) fram hjá (marki)' [afbrennsla]

Fyrri merkingin mun vera sjaldgæf í nútímamáli en sú síðari er algeng í máli íþróttamanna. Umsjónarmaður hefur veitt því athygli að nú er orðasambandið oft notað í merkingunni 'misnota vítaspyrnu'. Í dagblaði var t.d. ritað um leik Englendinga og Frakka: ?Zidane tryggði Frökkum sigurinn með tveimur mörkum eftir að Beckham hafði brennt af í [svo] vítaspyrnu (14.6.04) en í greininni kom fram að franski markvörðurinn varði vítspyrnu frá Beckham.

Annað dæmi: ?Beckham brenndi af tveimur vítum á EM (28.6.04). Umsjónarmaður hefur að vísu aldrei haft nein afskipti af knattspyrnu en hann telur þó að slík notkun samræmist ekki málvenju og kann henni illa.

Í fyrra dæminu hér að ofan var ritað ?brenna af í vítaspyrnu. Þetta samræmist ekki eðlilegri málnotkun. Menn geta brennt af úr vítaspyrnu, skorað (mark) úr þröngri stöðu, skotið (á mark) úr upplögðu færi; skorað úr aukaspyrnu eða skotið (á mark) af löngu færi.

Málkenndin segir okkur að í öllum tilvikum sé um það að ræða hvaðan skotið er en ekki hvar og því er oftast notuð forsetningin úr en stundum af. Ruglingur á notkun forsetninganna úr og í í hliðstæðum samböndum er því miður ekki bundinn við fá dæmi, hans gætir víða.

Umsjónarmaður á bágt með að átta sig á hvað hér liggur að baki. Er það kannski keppnin (brenna af í vítaspyrnukeppni)? Trúlegra er að slíka málbeitingu megi rekja til ofvöndunar, þ.e. sumum kann að finnast að orðasambandið eigi að vísa til kyrrstöðu (staðar), líkt og skjóta í húsinu eða skjóta á vellinum. Flestir hljóta þó að vera sammála um að slíkt nær engri átt.

Úr handraðanum

Sögnin skora er skyld sögninni skera-skar-skárum-skorið. Hún merkir m.a. 'marka skoru' en það var t.d. gert er lið var skorað 'talið', sbr. einnig skora fyrir e-m 'marka skoru á stöng/kefli' (sem sýnir töluna).

Sagnarsambandið skora stig merkir því 'marka stig; fá stig markað' og af sama meiði er sambandið skora mark en sú merking er vitaskuld einungis kunn úr nútímamáli þar sem knattspyrna er ung íþróttagrein á Íslandi.

Orðasambandið skora á e-n (í e-ð/(til e-s)) 'leggja fast að e-m að gera e-ð; mana e-n til e-s' [áskorun] er algengt í fornu máli og einnig orðasambandið skora e-n á hólm. Eldri mynd þess er skora e-m hólm og vísar hún til þess er e-m var skoraður ('markaður') vígvöllur (oft var barist á hólmi/hólma sem þóttu hentugir til þessa) og hann hvattur til að mæta á hólminn.

Í fyrra tilvikinu (skora e-n) er merkingin 'mana e-n, hvetja e-n' en í því síðara (skora e-m hólm 'marka e-m hólmgönguvöll') felst vísun til þágu/óþágu ('skora e-m hólm').

Orð í íslensku eru jafnan afar gagnsæ og oft má ráða í grunnmerkinguna ef menn gefa sér tíma til að velta orðunum aðeins fyrir sér.

Morgunblaðið, 21. ágúst 2004