Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   4. september 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 35. ţáttur

Íslenskt mál - 35. þáttur

Í nútímamáli er notkun orðasambandsins leiðir skilur nokkuð á reiki.

Það mun oftast vera notað ópersónulega, þ.e. leiðir (þf.) skilur, en alloft er það notað persónulega, þ.e.: leiðir skilja. Í orðabók Eddu er hvort tveggja tilgreint: leiðir skilur, leiðir skilja (skiljast) (bls. 882).

Umsjónarmaður hefur vanist því að persónulega notkunin, leiðir skilja, vísi til beinnar merkingar (‘leiðir greinast (og hver fer sína leið)’), t.d.: Þegar við komum upp á heiðina skildu leiðir okkar.

Orðasambandið leiðir einhverra liggja saman er notað með hliðstæðum hætti í andstæðri merkingu. Hins vegar finnst umsjónarmanni að ópersónulega notkunin, leiðir skilur, vísi til mismunandi afstöðu eða ágreinings með mönnum um eitthvað, t.d.: Ráðherrarnir voru sammála um flest en þó skildi leiðir (með þeim) er rætt var um aðild að Evrópusambandinu.

Í fornu máli er einungis að finna eitt dæmi um orðasambandið leiðir skilur og er það notað þar í beinni merkingu (Egils saga, 75.k.). Hins vegar eru til fjölmörg fornmálsdæmi um orðasamböndin leiðir skiljast og þar/þá skilur með einhverjum og öll eru þau í beinni merkingu að því er best verður séð.

Umsjónarmaður hefur ekki rekist á eldri dæmi en frá 19. öld um óbeina merkingu orðasambandsins leiðir/vegir einhverra skilja og samsvarandi ópersónuleg dæmi (leiðir skilur) eru frá 20. öld.

Með vísan til dæma úr fornu máli og síðari alda máli og þess sem að ofan gat er niðurstaða umsjónarmanns eftirfarandi. Um er að ræða þrjú orðasambönd:

 1. leiðir skilja (bein merking)
 2. leiðir skilur (óbein merking)
 3. leiðir skiljast (bein merking).

Það er því merkingin sem sker úr um notkun. Þá er það einnig skiljanlegt að upp geta komið vafatilvik. Lesendur geta t.d. velt fyrir sér merkingu eftirfarandi dæma en eftir henni fer notkunin:

 • Eftir fjörutíu ára hjónaband skildu leiðir (bein merking) (annað hjónanna dó og hélt sína leið (til guðs) en hitt hélt áfram sinn æviveg)
 • Eftir þriggja ára samstarf í ríkisstjórn skildi leiðir ((óbein merking) upp kom ágreiningur).

Halldór Þorsteinsson bendir réttilega á að atviksorðin erlendis og utan séu oft ranglega notuð og er það þörf og réttmæt ábending.

Sum atviksorð vísa til dvalar á stað (hvar) en önnur til hreyfingar á stað/til staðar (hvert). Atviksorðið erlendis er eitt þeirra atviksorða sem ávallt vísa til dvalar (hvar) og af því leiðir að það er notað með sögnum sem vísa til dvalar (hvar) en ekki með sögnum sem vísa til hreyfingar (hvert).

 • hann/hún býr erlendis
 • þeir dvöldust lengi erlendis
 • henni finnst gaman að ferðast um erlendis
 • hann/hún menntaðist erlendis
 • þeir/þær/þau verða erlendis um jólin
  hvar, hér, þar. Einnig má breyta setningunum í spurnarsetningar, t.d.: Hvar býr hann/hún? eða Hvar dvöldust þeir?

  Í svarinu verður að vera liður sem vísar til dvalar á stað, t.d. heima, á Íslandi, í útlöndum o.s.frv. Menn þurfa ekki að búa yfir neinni málfræðiþekkingu til að fullvissa sig um þetta, hér sem oftar dugir málkenndin mætavel.

  Orðasambandið fara utan merkir ‘fara til útlanda (miðað við Ísland), fara frá Íslandi til útlanda’, t.d.: fara utan til náms og Meðal annarra sem fara utan, eru ...

  Á þennan hátt hefur orðasambandið verið notað frá elstu heimildum til nútímamáls. Ekki verður séð að nein ástæða sé til að breyta því. Orðasambandið fara út merkti jafnan í fornu mál ‘fara til Íslands (frá Noregi)’ en sú merking mun dáin drottni sínum. Í nútíma máli er það oftast notað í beinni merkingu, t.d.: fara út (í góða veðrið, út út húsinu ...) eða fara út um helgar ‘á skemmtistað’.

  Fallstjórn sagna í íslensku lýtur ákveðnum lögmálum. Sumar sagnir geta ýmist stýrt þolfalli eða þágufalli. Ein þessara sagna er sögnin að skjóta.

  Ef um er að ræða svo kallað beint andlag er notað þolfall, t.d. skjóta fuglinn. Ef andlagið er hins vegar óbeint, ef það ‘hreyfist’ (svo er ef merking sagnarinnar felur í sér hreyfingu), er notað þágufall, t.d. skjóta skoti eða skjóta knettinum.

  Þessu lögmáli lúta fjölmargar sagnir, t.d.

  • sópa stéttina en sópa ruslinu
  • ausa bátinn en ausa vatninu
  • moka flórinn en moka mykjunni
  • vefja fingurinn en vefja treflinum um hálsinn.

  Sagnir af þessari gerð eru fjölmargar í íslensku og hér er það merkingin sem ræður fallstjórn.

  Í sumum tilvikum hefur breytt merking áhrif á fallstjórn og þarf það raunar ekki að koma á óvart. Vafalaust eru allir sammála um að við segjum: negla naglann enda er andlagið þar beint. Í máli íþróttamanna ber hins vegar oft við að talað er um að ?negla knettinum/boltanum, t.d.: hann þarf ekki annað en negla boltanum á markið (26.6.04).

  Hér væri eðlilegt og í samræmi við málkerfið að segja negla knöttinn/boltann (í mark).

  Skýringin á þessu nýmæli blasir við, sögnin skjóta e-u/boltanum hefur áhrif á notkun sagnarinnar negla, sbr. einnig samböndin þruma/(þrusa) boltanum og dúndra boltanum [< d. dundre].

  Af sama meiði er notkunin ?hamra knettinum. Menn geta hamrað ýmislegt og flestir munu þekkja málsháttinn Hamra skal járn, meðan heitt er. Í Ofvitanum kemst Þórbergur Þórðarson eftirminnilega að orði: ég streittist við að hamra inn í hausinn á mér þessa landslagslausu flatneskju.

  Þeir sem kjósa að nota sögnina hamra í nýrri merkingu (‘skjóta (knetti) fast’) ættu að virða málvenjuna og hamra knöttinn/boltann.

  Úr handraðanum

  Í Egils sögu Skalla-Grímssonar segir frá Vermalandsför Egils en þar lenti hann í miklum mannraunum og háska.

  Í 75. kafla segir: „Síðan fóru þeir og hélst ferillinn (‘slóðin’), og var þá fjöldi spora, og er þeir koma þar er leiðir skildi þá skildi og slóðina og var jafnmikil í hvorn stað.“

  Eins og sjá má er merking orðasambandsins leiðir skilur hér bein ‘slóðin greinist í tvennt’ og orðasambandið er ópersónulegt (leiðir, slóðina, þf. og skildi, 3.p.et.).

  Orðasambandið þar skilur með e-m er hins vegar alltaf notað ópersónulega hvort sem merkingin er bein (‘verða viðskila, leiðir einhverra skiljast’) eða óbein (‘upp kemur ágreiningur’).

  Sem dæmi má taka:

  • þeir urðu samferða að ánni en þar skildi með þeim ‘hvor fór sína leið’
  • höfðu þeir samflot þar til er þeir sáu Ísland, þá skildi með þeim ‘skildu leiðir þeirra’
  • Ráðherrarnir eru sammála um flest nema um aðild að Evrópusambandinu. Þar skilur með þeim


   Morgunblaðið, 4. september 2004