Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   18. september 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 36. ţáttur

Íslenskt mál - 36. þáttur

Orðasambandið leiða eitthvað að einhverju er algengt í íslensku, t.d. leiða hugann að einhverju og leiða rök/líkur að e-u.

Svipað að búningi en ólíkt að merkingu og hugsun er orðasambandið leiða getum að e-u/(um e-ð), t.d.: Seinni alda sagnfræðingar hafa ýmsum getum leitt að því, hvað í þessari frásögu væri í raun og veru fólgið.

Orðasambandið leiða getum að e-u/(um e-ð) er kunnugt í nokkrum afbrigðum í fornu máli en upprunalegast virðist leiða getum (‘með getum’) um e-ð þar sem getum stendur sem aukafallsliður (háttarfall). Nútímamyndin er rökrétt miðað við merkingu (vísar til hreyfingar að stað), leiða að e-u getum, og merkir því ‘færa rök að e-u með getum; giska á e-ð’.

Í nútíma máli er orðasamböndunum leiða líkur að einhverju og leiða getum að einhverju stundum ruglað saman, og getur niðurstaðan þá orðið;

  • ?leiða getur að einhverju
  • ?leiða líkum að einhverju


Dæmi af þessum toga eru eftirfarandi:

  • ?Er líkum að því leitt að óöldin muni ekki batna (14.6.04)
  • ?leiða má líkum að því að atburðarás undanfarinna vikna eigi sinn þátt í að ... (18.6.04)


Hér sem endranær finnst umsjónarmanni einboðið að fara eftir málvenju eins og hún kemur fram í traustum heimildum.

Heilbrigðishópur Femínistafélagsins sendi nýlega frá sér ályktun þar sem segir:

„Auk þess vill heilbrigðishópur Femínistafélagsins beina þeirri athugasemd til fréttafólks að orðið vanfær er vart viðeigandi orð fyrir barnshafandi konur í dag. Að nota orðið vanfær yfir barnshafandi konu jafnast á við að nota orðið aumingi yfir þroskaheftan einstakling eða kynvillingur yfir samkynhneigðan einstakling. Öll þessi orð finnast enn í íslenskum orðabókum þó notkun þeirra þyki mjög óviðeigandi“ (Mbl.23.6.04).

Umsjónarmanni finnst það alls ekki óviðeigandi að lo. vanfær vísi til þungaðrar konu.

Ýmis orð og orðasambönd vísa til þess er kona er með barni. Þannig getum við sagt:

  • hún er kona ekki einsömul
  • konan er þunguð
  • konan er ólétt
  • konan er vanfær (að barni)
  • konan er ófrísk að sínu fyrsta barni


...svo að nokkur dæmi séu nefnd. Mismunandi orðafar um óléttu sýnir hugmyndaauðgi og sköpunarmátt málsins. Í þýðingu Odds Gottskálkssonar (frá 1540) segir í fyrsta kafla Mattheusar guðspjalls, 18. versi: María, hans móðir, var föstnuð Jósep og áður en þau skyldu saman koma, fannst hún ólétt af heilögum anda.

Sum þeirra orða sem notuð eru í ofangreindum orðasamböndum eru neikvæðrar merkingar ef þau standa ein sér, t.d. vanfær og ófrískur, en hin neikvæða merking hverfur í orðasamböndunum. Umsjónarmaður sér því ekkert athugavert við það að taka svo til orða að kona sé vanfær í merkingunni ‘með barni’. Í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans má finna traustar heimildir fyrir slíkri notkun.

Notkun forsetninga getur verið vandasöm eins og reyndar má sjá af sumum þeirra dæma sem fjallað var um hér að ofan. Í fyrsta lagi er mikill munur á því að vera með barn (hjá sér) og vera með barni.

Í síðara tilvikinu eru tengslin náin og merkingin er ‘ásamt með’ en í fyrra tilvikinu eru tengslin fremur laus og þau má umorða með sögninni hafa. Dæmi um slíkan merkingarmun eru fjölmörg í íslensku, lesendur geta t.d. velt fyrir sér muninum á því að koma með skipið og koma með skipinu eða fara með barnið til læknis og fara með barninu til læknis/í leikhús.

Í öðru lagi er mikill merkingarmunur á dæmunum vera ófrísk að barni og ?vera ófrísk af barni. Forsetningarliðurinn að einhverju merkir oft ‘með tilliti til, að einhverju leyti’, t.d. vera sannur að sök, og það er sú merking sem hér á við. Það samræmist því ekki málvenju að skrifa: ?Leikkonan Liv Tyler er ófrísk af sínu fyrsta barni (24.6.04). Um merkingu forsetningarliðarins af einhverjum (‘eftir e-n’) geta menn fræðst með því að skoða ofangreint dæmi Odds Gottskálkssonar.

Orðasambandið vara e-n við e-u merkir oftast ‘aðvara, ráða e-m frá e-u; biðja e-n að gæta sín’, t.d.: vara e-n við að neyta fíkniefna og vara e-n við að gera árás (á e-n/e-ð).

Í Íslenskri orðabók er einnig tilgreind merkingin ‘segja frá e-u hættulegu eða illu’.

Sú merking er umsjónarmanni ekki töm og hana er t.d. ekki að finna í orðabók Sigfúsar Blöndals. Því þurfti hann að tvílesa eftirfarandi frétt í textavarpinu: Al Qaeda samtökin í Sádi Arabíu vara við árásum gegn [svo] bandarískum og öðrum vestrænum flugfélögum og á staði sem Vesturlandabúar sækja eða dveljast á (7.6.04).

Hér er merkingin greinilega ‘boða e-ð illt; vara (fólk) við því að samtökin muni gera árás’ (en ekki ‘vara fólk við því að gera árás’). Hér virðist vera um að ræða nýja merkingu eða nýja notkun orðasambandsins vara e-n við e-u. Daginn eftir var fjallað um sama efni í Morgunblaðinu og þar stóð: [samtökin hafa] boðað að vestræn flugfélög verði aðalskotmark samtakanna á næstunni (8.6.04).

Úr handraðanum

Flestir munu kannast við orðasamböndin leita á náðir e-s eða flýja á náðir e-s.

Þau eru gömul í málinu og munu eiga sér kristilegar rætur. Þess eru mörg dæmi að menn hafi leitað á náðir guðs. Þegar þangað er komið eru menn komnir upp á náð eða miskunn drottins.

Í þessum búningi er orðasambandið kunnugt frá fornu máli og fram á 18. öld, t.d.: vera kominn upp á náð e-s (16. öld) og vera upp á náðir e-s kominn (með e-ð) (18. öld).

Í nútíma máli hefur upprunaleg vísan bliknað og nú er orðasambandið algengt í liðfelldri mynd og nokkuð breyttri merkingu: vera (ekkert) upp á e-ð/e-n kominn ‘(ekki) háður (e-u/e-m)’, t.d.: Karlinn er ekkert upp á það kominn að þiggja ráð hjá öðrum og hafði þangað til ekkert fiskast, en verfólk upp á mig komið.

Hér er merkingin óbein en í orðasambandinu vera kominn upp á hól (eða e-ð þvílíkt) er hún bein. Það er því reginmunur á orðasamböndunum vera upp á e-n kominn (óbein merking ‘háður e-m’) og vera kominn upp á e-n (bein merking) og þennan mun þekkja og skynja allir þeir sem mæltir eru á íslenska tungu.

Í blaðagrein var vitnað til nýlegrar bókar og þar gat að líta eftirfarandi málsgrein: ‘Er það eðlilegt að forseti lýðveldisins sé kominn upp á einhvern lögmann úti í bæ um fjárhagslegt sjálfstæði sitt?’

Hér virðist ekki rétt farið upp á kúna eins og stundum er sagt.

Morgunblaðið, 18. september 2004