Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   2. október 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 37. ţáttur

Íslenskt mál - 37. þáttur

Í ensku er kunnugt orðasambandið

 • on one’s toes í merkingunni ‘ákafur (eager, alert)’ (The Concise Oxford Dictionary)

og í andstæðri merkingu er til orðasambandið

 • down at heel / down at the heel ‘í lélegu ástandi (in or into a run-down or shabby condition)’ (Websters=s Ninth New Collegiate Dictionary).

Vísanin í ensku er augljós og kann líkingin að vera sótt til íþrótta, þar sem líkamlegt atgervi og limaburður skiptir máli.

Þessi orðasambönd virðast hafa ratað inn í íslensku. Umsjónarmaður hlýtur að viðurkenna að notkun þeirra er honum framandi en þau dæmi sem honum eru tiltækið benda til þess að notkunin sé eftirfarandi:

Vera á tánum

 1. ‘vera kappsamur, duglegur; standa sig vel í kappleik’
  • Nú er eins gott fyrir markmanninn að vera á tánum [þ.e. tekin er aukaspyrna]
  • menn eru á tánum í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur (10.8.04)
 2. vera á tánum af spenningi.
 3. vera á tánum í tiltekinni fræðigrein ‘hafa fylgst vel með’
  • Prófessorinn fyrrverandi er greinilega enn á tánum í stjórnmálafræðum
  • Dómstólar eru ekki á tánum (hvað varðar viðurlög við meinsæri) (6.7.2004)

Vera á hælunum

 • ‘standa sig illa (í kappleik)’
  • Liðið var á hælunum allan leikinn.

Nú er það auðvitað svo að íslensk tunga er ekki kyrrstæð og nauðsynlegt er að finna nýjum hugtökum og hlutum íslenskan búning.

Hér er hins vegar ekki um að ræða nýmæli og þá merkingu sem um ræðir má tjá með margvíslegum hætti á íslensku. Umsjónarmanni virðist að það geti ekki talist beinlínis rangt að þýða erlend orðasambönd með þessum hætti á íslensku en finnst að í þessu tilviki sé það óþarft. Því er vakin athygli á þessum orðasamböndum hér að umsjónarmaður telur gagnlegt að sem flestir viti hvaðan nýmæli er ættað. Sumir kunna að kjósa að tjá sig með þessum hætti en öðrum dugir íslenskan.

- - - -

Þess eru mörg dæmi að fallstjórn sagnorða sé á reiki eða hafi breyst í aldanna rás. Hér skal vikið að nokkrum dæmum úr nútímamáli.

Umsjónarmanni virðist fallstjórn sagnarinnar rugla vera fastbundin. Ef andlagið er beint er notað þolfall:

  ekki rugla mig
 • þú ruglar mig í ríminu

Ef það er hins vegar óbeint (‘hreyfist’) er notað þágufall:

 • Ekki rugla hringjunum mínum (ummæli Arkimedesar)
 • strákurinn ruglar öllu saman

Reglan um andlag sem ‘hreyfist’ er þumalputtaregla kennara sem oft hefur gefist vel. Átt er við muninn á eftirfarandi dæmum:

 • sópa stéttina
 • sópa ruslinu (ruslið hreyfist)
 • moka tröppurnar
 • moka snjónum
 • ausa bátinn
 • ausa vatninu

Hér er notkun þolfalls og þágufalls fastbundin enda er merkingarmunur greinilegur. Í mörgum tilvikum fá orð nýja merkingu og stundum er það svo að hin nýja merking getur haft áhrif á fallstjórn.

Í 35. þætti var vikið að sögninni negla; hún stýrir jafnan þolfalli (negla naglann) en í merkingunni ‘skjóta fast, þruma’ verður þess vart að hún sé notuð með þágufalli, þ.e. ?negla boltanum í stað negla boltann (í markið).

Af sama meiði er breyting á fallstjórn ýmissa annarra sagna, t.d.:

 • ?flétta öllu saman í stað flétta allt saman;
 • ?rústa öllu í stað rústa allt
 • ?framlengja víxli í stað framlengja víxil.

Ekkert af þessu er alveg nýtt í málinu, ætla má að slík dæmi séu 15-20 ára gömul, en það er hins vegar nýtt fyrir umsjónarmanni að sögnin uppfylla skuli látin stýra þágufalli:

 • ?möguleikar á samkomulagi opnuðust eftir að skilyrðum var uppfyllt (Útv. 12.7.04)
 • ?Í lögunum segir að þann einan megi skipa í embætti hæstaréttardómara sem uppfylli eftirtöldum skilyrðum (Mbl. 21.9.04).

Hér virðist það vera sögnin fullnægja (e-u) eða öllu heldur merking hennar sem hefur áhrif á fallstjórn sagnarinnar uppfylla (e-ð). Vitaskuld er venjan sú að tala um að menn uppfylli öll/eftirtalin skilyrði.

Notkun sagnanna handsala e-m e-ð og afsala e-m e-u/(e-ð) er stundum á reiki.

Umsjónarmaður hefur rekist á dæmi þar sem sögnin handsala stýrir þágufalli, t.d.

 • ?handsala samningnum í stað handsala samninginn ‘staðfesta með handtaki/handsali’.

Slík notkun samræmist ekki málkerfinu né styðst við hefð. Dæmi um venjubundna notkun eru t.d.:

 • handsala (e-m) samninginn
 • handsala kaupin
 • handsala e-m hollustu sína
 • handsala mál í dóm (‘takast í hendur og lofa að hlíta dómi’).

Fornmálsdæmi staðfesta þessa notkun, t.d.:

 • handsala landkaup
 • handsalaði hann þá henni það sem hún beiddist
 • handsala e-m sjálfdæmið
 • handsala þessa sætt
 • handsala e-m landið.

Nafnorðið handsal vísar til þess er menn selja fram hönd sína, staðfesta eitthvað með handtaki. Sögnin handsala á sér ýmsar hliðstæður, t.d. framselja e-n e-m eða framselja e-m e-ð.

Sögnin afsala er erfið en hún er augljóslega af sama meiði og sagnirnar handsala og framselja. Þess væri því að vænta að hún tæki með sér þágufall og þolfall (afsala sér einhvern hlut) enda gerði hún það í fornu máli og fram á 18. öld, t.d.:

 • afsala fé sitt bróður sínum
 • Magnús ... afsalaði sér alla lögsögu yfir kristindómsrétti

Í nútíma máli er hins vegar sagt:

 • afsala sér völdum, réttindum, starfi ...
 • afsala sér rétti til e-s

Hér hefur því orðið breyting. Það má telja úrelt mál að afsala sér e-ð en rétt mál er afsala sér e-u. Hvernig skyldi standa á þessu?

Fallaramminn afsala sér e-ð er í samræmi við málkerfið, þ.e. beint andlag í þf. og þiggjandinn í þágufalli.

Það er enn fremur ‘regla’ í íslensku að beint andlag stendur oftast í þolfalli (ausa bátinn) en óbeint í þágufalli (ausa vatninu). Þessa reglu kunna málnotendur þótt þeir þekki hana kannski ekki. Breytta fallmörkun sagnarinnar afsala má trúlega rekja til merkingar, allt veltur á því hvort menn skynja hreyfingu í sögninni eða ekki, sbr. einnig að sömu tilhneigingar gætir um sagnirnar handsala, framlengja og ýmsar aðrar.

Enn fremur má ætla að merkingarskyldar sagnar hafi áhrif, t.d. afneita e-u, hafna e-u og falla frá e-u.

Úr handraðanum

Málshátturinn Veður ræður akri er nokkuð gamall í málinu og vísar hann til þess að menn áttu uppskeru sína undir veðrinu.

Eins og oft vill verða um málshætti er hann einnig kunnur í aukinni eða lengri mynd: Veður ræður akri en vit syni.

Það má vissulega til sanns vegar færa að allir eiga mikið undir manviti sínu, það hlýtur að ráða miklu um örlög manna. En tímarnir breytast og fyrri hluti málsháttarins eða elsta gerð hans á trúlega lítinn hljómgrunn í nútímanum enda hélt umsjónarmaður satt best að segja að málshátturinn væri ekki lengur notaður.

Hann mun enda ekki vera að finna í prentuðum heimildum síðustu 200 ára. Það kom því umsjónarmanni verulega (og skemmtilega) á óvart að sjá málsháttinn í fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins 27. júní 2004. Þar var hann notaður til að vísa til þess að rigning á kjördegi mundi draga úr kjörsókn við forsetakosningarnar. Þetta sýnir svo að ekki verður um villst að munnleg geymd er afar sterk á Íslandi.

Morgunblaðið, 2. október 2004