Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   11. júní 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 53. ţáttur

Íslenskt mál - 53. þáttur

Frá því segir í Alexanders sögu að Alexander mikli hafi komið í Þórshof í borginni Sardis í Persíu. Í hofinu stóð vagn sem festur var við ok eða sila sem ‘engi kunni frá leysa’ eins og segir í elstu gerð sögunnar. Jafnframt er frá því greint að sá sem gæti leyst hnútana fengi sigrað alla Asíu.

Alexander reyndi að leysa hnútana en tókst það ekki. Þá brá hann á það ráð að höggva á þá með sverði sínu. — Til þessarar frásagnar vísar orðatiltækið höggva á hnútinn ‘leysa e-ð með afgerandi (oft gjörræðislegum) hætti’. Af því eru reyndar til ýmis afbrigði, t.d. með leysa, en þá er merkingin ekki alveg sú sama eins og lesendum ætti að vera í lófa lagið að ganga úr skugga um.   Umsjónarmaður fellir sig hins vegar ekki við að notuð sé sögnin skera í stað höggva eins og sjá mátti í Fréttablaðinu: Viljayfirlýsingin átti að skera á þann hnút (18.10.04). Hér kann að gæta áhrifa frá ensku: cut the (gordian) knot.

Orðatiltækið stinga höfðinu í sandinn ‘neita að horfast í augu við veruleikann’ er tiltölulega ungt í málinu og á það sér erlendar rætur. Líkingin vísar til þess að strúturinn stingur höfðinu í sandinn þegar hætta steðjar að.

Nýlega rakst umsjónarmaður á nýtt afbrigði: taka strútinn. Grein í Morgunblaðinu bar yfirskriftina Herra Jón: Erum við að taka strútinn? Í greininni var fjallað um andvaraleysi í áfengismálum og þar sagði: ‘Guðmundur Steingrímsson nefndi það í einum pistla sinna að það væri kallað að taka strútinn ef einhver þættist ekki taka eftir vandamálum í kringum sig, þ.e. væri í afneitun.’ Trúlega er hér um að ræða slangur eða unglingamál.

Sumum kann að finnast þetta nýmæli hnyttilegt og ef til vill var það einmitt notað til að vekja athygli á brýnu málefni. Um smekk manna verður að vísu ekki deilt en notkun orðatiltækisins vera að taka strútinn samræmist vissulega ekki málvenju. Merking orðatiltækisins getur ekki vísað til dvalar og því er t.d. ótækt að segja : Erum við að stinga höfðinu í sandinn?; Erum við að loka augunum fyrir áfengisbölinu?; Erum við ekki að taka eftir vandamáluum í kringum okkur? eða Erum við að gleyma okkur?

Hér að ofan komst umsjónarmaður svo að orði að ótækt væri að segja ..., þ.e. ótækt væri að nota orðasambandið vera að + nh. (dvalarhorf) með sögnum sem sökum merkingar sinnar geta ekki vísað til dvalar. Líklega er varlegra að segja að slíkt hafi fram til þessa verið ótækt því að vissulega eru þess fjölmörg dæmi í nútímamáli að orðasambandið vera að gera e-ð sé notað í tíma og ótíma — einnig þar sem það brýtur í bág við málvenju.

Nýlega fylgdist umsjónarmaður með broti úr handknattleik sem sýndur var í sjónvarpinu. Það er ótrúlegt en satt, þær tuttugu mínútur sem hann horfði á leikinn tókst þeim sem lýstu honum að komast hjá því að nota sagnorð í persónuhætti, þeir notuð þess í stað nafnhátt:

 • leikmenn voru ekki að berjast nógu vel
 • þeir voru ekki að sýna einbeitni
 • þeir voru ekki að standa sig nógu vel varnarlega
 • leikmaðurinn er að gera gott mark
 • hann er ekki að nýta færin nógu vel
 • markvöruðurinn er ekki búinn að vera að finna sig nógu vel
 • breytingin er að heppnast vel
 • leikmönnum er örugglega ekkert að líða vel þegar aðeins tuttugu mínútur eru eftir
 • leikmenn eru að fá fín færi en þeir eru bara ekki að nýta þau nógu vel.

Umsjónarmaður telur vafalaust að umfjöllun um íþróttir sé afar mikilvægur þáttur í daglegu lífi fjölmargra, ekki síst barna og unglinga. Ætla má að margir líti upp til þeirra sem annast slíka þætti, hafi þá jafnvel að fyrirmynd. Það er því sanngjörn krafa að mati umsjónarmanns að ætlast til að vandað sé til íþróttaþátta í fjölmiðlum. Íþróttaþættir í ríkisfjölmiðlum ættu að vera til fyrirmyndar um málfar.

Málhagur maður kallaði ofnotkun orðasambandsins vera að + nh. eitt sinn í eyru umsjónarmanns handboltahorf. Það skiptir ekki máli hverju nafni hún nefnist en hitt er verra að hún breiðist hratt út. Nokkur dæmi:

 • Framkvæmdastjóri FÍB segir að stóru olíufélögin séu að leggja mun minna á bensínið heldur en þegar þau stunduðu enn þá samráð (Textav 6.4.2005)
 • [skoða] hvort stóru olíufélögin séu að beita undirverðlagningu (Textav 6.4.2005)
 • lögmaður landeigenda ... segir að með þessum úrskurði sé ráðuneytið að fallast á það sjónarmið að ... (Mbl. 18. 11. 04)
 • svo virðist sem margir þessara verkamanna séu að fá 400 til 600 krónur á tímann (Fréttabl. 14. 5.05)
 • Ljóst er að fjölmiðlamarkaðurinn er að taka hröðum breytingum (9.4.2005).

Umsjónarmaður hefur orðið þess var að skoðanir eru skiptar um dæmi sem þessi. Sumum finnast þau fullgóð, jafnvel eðlileg, en aðrir telja þau ótæk. Um smekkinn tjáir ekki að deila en það er engum vafa undirorpið að hér er nýmæli á ferð. Okkar bestu menn, skáld og rithöfundar, tjá sig ekki á þennan hátt.

Úr handraðanum

Í ágætri grein komst Guðrún Egilson svo að orði:  Þarna hafði ég svo setið með hana [bókina] slímusetur klukkustundum saman (Mbl. 15.5.05).  Umsjónarmaður þekkir vel orðasambandið sitja slímusetur/(slímusetri) en taldi satt best að segja að það tíðkaðist ekki lengur. En hvernig er það hugsað, hvað liggur hér að baki?

Í fornmálsorðabókum og orðabók Blöndals er tilgreint orðið slímusetur, hk.et. ‘of löng seta á tilteknum stað’, sbr. slíma, slímdi, slímt, áhrl. ‘dvelja e-s staðar iðjulaus (sem gestur)’. Í Íslenskri orðabók er gefin orðmyndin slímusetur, kvk.flt., í sömu merkingu. Orðasambandið sitja e-s staðar slímusetur/(slímusetri ) merkir þá ‘sitja sem gestur lengur en sæmilegt þykir (lengur en orlofsnæturnar; lengur en þrjá daga (Bl.)); sitja löngum stundum e-s staðar’.

Elstu dæmi eru úr fornu lagamáli, sbr. (stafsetning færð til nútímamáls): kona má fæða bónda sinn nætur fimm að ósekju, síðan dómur kemur á hendur honum, en ef hann situr þar lengur slímusetur, þá ... og menn þeir, er til þess vilja hafa sig að ganga í samkundir manna óboðið af þess hendi, er veisluna á, og sitja þar slímusetri, og þó að þeir verði harðlega á brott reknir ... 

Líkingin er óljós, hún kann að vísa til þess að slím sest á það sem lengi er óhreyft auk þess sem slím hefur neikvæða vísun.

Morgunblaðið, 11. júní 2005