Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   28. maí 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 52. ţáttur

Íslenskt mál - 52. þáttur

Flestir munu kannast við orðatiltækin láta ljós sitt skína og setja ekki ljós sitt undir mæliker. Þau eiga rætur sínar í Biblíunni (Matt 5, 15) og vísar ljós upprunalega til ‘góðverka’ en síðar til ‘hæfileika’ og mæliker merkir ‘mæliaskur; ker, ílát til að mæla e-ð í’. Sá sem er góður með sig lætur bera á þekkingu sinni eða hæfileikum, lætur ljós sitt skína, og um þann sem lætur ekki lítið yfir eigin verðleikum getum við sagt: Hann setur ekki ljós sitt undir mæliker.

Í Kastljósi var nýlega (11.4.05) rætt um formannsefni Samfylkingarinnar og þá var sagt: hans [Össurar] störf eru undir mælikeri þessa dagana í merkingunni ‘störf hans eru í brennidepli, til skoðunar’. Umsjónarmaður taldi satt að segja að um mismæli væri að ræða enda hefur Össur væntanlega engan áhuga á að setja störf sín undir mæliker í hefðbundinni merkingu. 

En það var ekki svo vel að dæmið væri stakt því að tveimur dögum síðar gat að líta svipaða málbeitingu: Þeir sem hefja leik á því að gagnrýna vinnubrögð hljóta að hlíta því að þeirra eigin vinnubrögð séu sett undir mæliker (Mbl. 13. 4. 05). Umsjónarmaður hélt að umrædd orðatiltæki væru býsna gagnsæ að merkingu en dæmin benda til að svo sé ekki. Vel má vera að merking orðsins mæliker sé ekki skýr í huga allra en hér sem endranær ber að fara eftir málvenju.

Í pistlum sínum hefur umsjónarmaður nokkrum sinnum vikið að því að í máli sumra virðist nokkur óvissa um notkun forsetninganna og af. Þessi óvissa leiðir til þess að notkun forsetningarinnar færist í vöxt á kostnað forsetningarinnar af. Grunnmerking forsetningarinnar vísar m.a. til hreyfingar, t.d. ganga að e-u (tilboði), vinna að e-u, stefna að e-u o.s.frv. Forsetningin af vísar hins vegar til hreyfingar af stað (hvaðan) en einnig til háttar, t.d. vinna að e-u af alefli og vinna af heilum hug.  

Samkvæmt þessu ætti að vera skýr merkingarmunur á orðasamböndunum vinna af heilindum og vinna að heilindum. Hið fyrra er algengt og auðskilið en hið síðara samræmist ekki málvenju. Í Fréttablaðinu var þó að finna eftirfarandi dæmi: ég þekkti ekki leikhúsfólk að öðru en vinna að heilindum hvað með öðru (6.5.2005).

Af svipuðum toga eru fjölmörg önnur dæmi. Þannig er mikill munur á því að taka sér alræðisvald og taka að sér tiltekið verkefni. Þessum orðasamböndum virðist hafa slegið saman í eftirfarandi dæmi: taka að sér alræðisvald (Útv. 1.4.05). 

Fram til þessa hafa menn lagt fram tillögur um e-ð eða tillögur til breytingar á lögum en nú er öldin önnur, t.d.:

  • tillögur að breytingum (Fréttabl. 13.5.04)
  • leggja fram tillögur að kjarasamningi (Fréttabl. 6.5.04)
  • lagt fram breytingartillögur við tillögu samgönguráðherra ... að samgönguáætlun (Mbl. 9.5. 2005)
  • frumvarp að lögum [þ.e. til laga] (Mbl. 17.3.05).

Slík dæmi eru ekki til fyrirmyndar.

Orðatiltækið hafa ekki erindi sem erfiði (‘ná ekki markmiði sínu (þrátt fyrir mikla viðleitni)’) á sér fornar rætur því að svipað orðafar er að finna í Eddukvæðum. Ætla má að það hafi lengi verið í föstum skorðum. Nýlega rakst umsjónarmaður á dæmi um afbökun þess: Japanski utanríkisráðherrann hafði ekki árangur sem erfiði er hann flaug til Peking ... (Fréttabl 16.4.05).

Nýlega (Mbl. 15.5.05) las umsjónarmaður ágæta grein eftir Freystein Jóhannsson í Morgunblaðinu um svo kallað Dýrafjarðarmál (tilraunir Frakka til að ná fótfestu á Vestfjörðum um miðja 19. öld). Þar fór saman skemmtilegt efni og áhugavert og ágæt framsetning. Þar var t.d. komist svo að orði: En Repp reri ekki einni ár í Dýrafjarðarmálinu og Á hinn bóginn hafa Danir vafalaust rennt í grun, að ...

Í fyrra dæminu notar greinarhöfundur sjaldgæft orðatiltæki sem að mati umsjónarmanns hljómar vel og er fyllilega gagnsætt að merkingu. Í síðara dæminu er um að ræða orðasamband sem er nokkuð á reiki í nútímamáli: renna grun í e-ð eða (síður) e-n rennir grun í e-ð. Notkun greinarhöfundar er í samræmi við málvenju og uppruna. 

Nafnorðið skotspónn merkir ‘skotskífa, skotmark’ og af því eru mynduð orðasamböndin hafa e-n að skotspæni ‘veitast að e-m, hæðast að e-m; beina spotti sínu að e-m’ og heyra e-ð á skotspónum ‘fá lausafregnir um e-ð/af e-u’. Þessi orðasambönd eiga sér langa sögu í íslensku og eru hluti af eðlilegu máli. Hitt er nýtt og getur ekki talist til fyrirmyndar að beina skotspónum að e-u ‘gagnrýna e-ð’ eins og lesa mátti í grein í Morgunblaðinu: Í báðum greinunum er skotspónunum beint að svokölluðu ‘tveggja lækna mati’ (Mbl. 7.4.05). 

Úr handraðanum

Sagnarsambandið dirka e-ð upp er hvorki að finna í íslenskum orðabókum né í skrám Orðabókar Háskólans. Umsjónarmanni er það þó tamt, t.d. dirka upp lás/læsingu/peningaskáp í merkingunni ‘stinga upp’. Það mun einnig vera kunnugt í myndinni dýrka e-ð upp, e.t.v. með vísan til þess er ‘e-ð er opnað með brögðum, töfrað upp’. 

Annar kostur er sá að telja að framburðarmyndin dírka hafi orðið dýrka við ofvöndun (eða misskilning). Orðmyndina dirka má telja rétta og er hún fengin úr dönsku: dirke noget op, dirke en lås op.  Það vísar til þess að d. dirk er heiti á verkfæri sem þjófar nota en það mun vera skrautyrði myndað af þ. Didrich, sbr. einnig karlmannsheitið Dirk.  — Það er því í alla staði rétt sem stóð í Fréttablaðinu: komst úr klefa sínum með því að dirka upp lás (11.05.2005).

Morgunblaðið, 28. maí 2005