Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   16. október 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 38. ţáttur

Umsjónarmarður hefur alloft vikið að notkun forsetninga enda virðist ekki vanþörf á því.

Þess eru mörg dæmi úr fjölmiðlum að forsetningunum og af sé ruglað saman. Halldór Blöndal telur að þeirrar tilhneigingar gæti að nota fremur forsetninguna að en af þegar óvissa um notkun kemur upp. Umsjónarmaður telur að Halldór hafi rétt fyrir sér og til þess benda sum eftirfarandi dæmi (dæmi sem ekki samræmast hefðbundinni málnotkun eru merkt með spurningarmerki):

 • ?Þjóðin hefur á undanförnum vikum orðið vitni að alvarlegu hegðunarvandamáli að hálfu [þ.e. af hálfu] lítillar og uppivöðslusamrar klíku (Fréttabl. 21.7.04)
 • ?Pokinn ... var um 75 kíló af þyngd [þ.e. þyngd] (Fréttabl. 3.8.04)
 • ?rafveitustjóri hefur haft [þ.e. átt] frumkvæði af því [þ.e. því] að ... (Textav. 7.6.04)
 • ?Samstarf flokkanna er ein aðalrótin að framförum [þ.e. aðalrót (‘undirstaða, grundvöllur’) framfara] sem orðið hafa (Mbl 16.9.04)

Dæmi sem þessi eru fjölmörg á síðum dagblaðanna og það mætti æra óstöðugan að eltast við þau enda gerist þess ekki þörf, það ætti að blasa við flestum málnotendum að þau samræmast ekki venjulegri málbeitingu. Óvissa um notkun fosetninganna og af er að því leyti einkennileg að merkingarmunur þeirra er skýr og þær gegna ólíku hlutverki í íslensku.

Önnur grunnmerkinga fs. er staðarleg (hvar) en fs. af vísar jafnan til hreyfingar (hvaðan). Það er því mikill munur á eftirfarandi dæmum:

 • gaman er e-uhafa gaman af e-u
 • enginn ávinningur er e-uhafa ávinning af e-u

Önnur dæmi um ofnotkun fs. á kostnað annarra forsetninga eru fjölmörg, t.d.:

 • ?eiga rétt að e-u [á e-u]
 • ?eiga forkaupsrétt að e-u [á e-u]
 • ?hugmyndin að ritun sögu [um e-ð]
 • ?tillaga að dagskrá [um e-ð]
 • ?réttindi að hlutabréfum [þ.e. til að kaupa þau/(á þeim)]
 • ?undirbúningur að atkvæðagreiðslu [fyrir e-ð]

Notkun orðatiltækja og fastra orðasambanda getur verð viðkvæm. Í flestum tilvikum er það svo að búningur og notkun eru í föstum skorðum og svigrúm til að víkja frá hefðbundinni notkun er lítið sem ekkert.

Það gengur t.d. alls ekki að taka svo til orða að ?ráðherra dragi dilk útvegsmanna (Fréttabl. 10.8.04). Það er hins vegar algengt að menn dragi taum e-s (‘styðji málstað e-s’) og það getur náttúrlega dregið dilk á eftir sér (>‘haft miklar (ófyrirséðar) afleiðingar’). Hér er augljóslega um samslátt að ræða.

Úr nútímamáli er kunnugt orðasambandið gefa í (‘flýta sér; herða sig’) og einnig gefa í botn en hvort tveggja vísar til þess er bensíngjöf bifreiðar er stigin í botn. Einnig er algengt að tala um að eitthvað/sjálfstraustið sé í botni (‘í lágmarki’). Umsjónarmanni finnst það hins vegar skjóta skökku við þegar sagt er: [við megum ekki vera hræddir við andstæðinginn] sjálfstraustið verður algjörlega að vera í botni (11.6.04). Merkingin á að vera ‘í hámarki’.

Dæmi af þeim toga sem nefnd voru hér að ofan má kalla klúður, þau má rekja til klaufaskapar eða hroðvirkni. Umsjónarmanni dettur ekki í hug að mæla þeim bót en telur þau tiltölulega meinlaus í þeim skilningi að oftast eru þau einangruð eða einstök og hafa sjaldnast áhrif á málkerfið sem slíkt. Þau dæmi þykja umsjónarmanni hins vegar verri sem fela í sér málnotkun sem stangast á við málkerfið og eru til þess fallin að breyta notkun þess orðasambands sem um ræðir. Skal nú vikið að tveimur slíkum dæmum.

Orðasambandið e-m ber e-ð (þf.) á góma (‘talið berst að e-u’) er kunnugt í elstu heimildum en í nútímamáli mun það vera algengast í myndinni e-ð (þf.) ber á góma en er einnig kunnugt í myndinni e-ð (þf.) ber e-m á góma. Það er einkum algengt með hvorugkyni, t.d.: margt/ýmislegt bar á góma.

Orðasambandið er ópersónulegt, þ.e. frumlagsígildið (eitthvað/margt) stendur í þolfalli og sögnin (ber/bar) stendur ávallt í eintölu, t.d.: fyrri ágreining bar á góma; söguna bar á góma og fréttirnar bar á góma.

Af þessu leiðir að eftirfarandi setning getur ekki talist rétt; ?Þá bar á góma sígild athugasemd [þ.e. sígilda athugasemd] um tilgangsleysi lögfæðinnar (Mbl. 5.7.04). Eins og sjá má er orðasambandið notað hér persónulega en sígild athugasemd getur auðvitað hvorki borið eitt né neitt á góma.

Orðatiltækið taka (of/nokkuð/full-) djúpt í árinni merkir ‘kveða (of) fast að orði, fullyrða (of) mikið’. Það á uppruna sinn í máli sjómanna og vísar til þess er árarblaðinu er dýft of djúpt í sjóinn, þ.e. árinni stendur sem aukafallsliður (‘með árinni’).

Þegar á fyrri hluta 20. aldar skýtur afbrigðið ?taka (of/full-) djúpt í árina upp kollinum. Sú mynd sýnir reyndar að líkingin sem að baki liggur blasir ekki lengur við — að minnsta kosti ekki við þeim sem taka svona til orða. Þótt segja megi að afbrigðið ?taka (of/full) djúpt í árina hafi slitið barnsskónum getur það ekki talist rétt né eftirfarandi dæmi: ?frammistaðan var afar léleg, svo að ekki sé dýpra í árina tekið (Sjónv., 5.6.04).

Úr handraðanum

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna margar frásagnir af Sæmundi fróða og viðureign hans við gamla bakarann. Í tveimur þeirra kemur púki við sögu.

Í annarri sögunni segir frá því að Sæmundur lét púka í fjósið hjá fjósamanni sem honum þótti of blótsamur en með þeim hætti hugðist hann sýna honum að kölski hefði blótsyrði og illan munnsöfnuð mannanna handa sér og púkum sínum til viðurværis. Fjósamanni tókst að stilla sig í nokkurn tíma og sá hann að púkinn horaðist með hverju dægri. Þó kom að því að hann hellti yfir hann óttalegum illyrðum og hroðalegu blóti en þá lifnaði púkinn við og varð svo feitur og pattaralegur að við sjálft lá að hann hlypi í spik þar sem hann lá á básnum sínum.

Til þessa vísar orðatiltækið fitna eins og púkinn í fjósi Sæmundar. Í hinni sögunni segir frá púka sem sat á kirkjubita og skráði hjá sér skammaryrði tveggja kerlinga sem sátu undir kirkjubitanum. Til þessa vísar orðatiltækið gleðjast eins og púkinn á kirkjubitanum.

Umsjónarmaður hefur rekist á allmörg dæmi þess að menn tali um að púkinn á fjósbitanum fitni, síðast í Mbl. 31.7.04. Af því sem að framan sagði má sjá að sú mynd á sér ekki stoð í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þar með er ekki sagt að hún sé röng og að engu hafandi, málvenja og málkennd sker úr um það.

Morgunblaðið, 16. október 2004