Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   14. maí 2005

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 51. ţáttur

Íslenskt mál - 51. þáttur

Í fyrri pistlum hefur verið vikið að muninum á forsetningunum eftir + þf. og á eftir + þgf. en hann virðist ekki skýr í máli sumra.

Meginreglan er sú að eftir að viðbættu þolfalli vísar til tíma, t.d.: Eftir vetur kemur vor eða Hver verður páfi eftir Jóhannes Pál II? Forsetningin á eftir vísar hins vegar oft til hreyfingar og raðar, t.d. hlaupa á eftir e-m. Atviksorðið á eftir vísar til tíma: ég kem á eftir. Dæmi um rugling af þessum toga: ... þá má vel orða það svo að nú taki við vetur á eftir vori (Fréttabl 10.3.2005). Breytinguna eftir þetta > á eftir þessu má kalla innri breytingu, hana má rekja til kerfisins sjálfs, en þeir sem vilja vanda mál sitt hljóta að halda sig við hefðbundna málbeitingu.

Sögnin ávísa stýrir þágufalli (ávísa (e-m) e-u) en hún getur þó ekki stýrt falli á sjálfri ef svo má að orði komast. Þess er þó mörg dæmi, t.d.: Landlæknisembættið viðurkennir vanda vegna ávanalyfja ávísuðum [ávísaðra] af læknum (Mbl 7.4.2005). Rétt sambeyging er sýnd innan hornklofa en setningin er fremur þunglamaleg og því færi trúlega best á því að umorða hana, t.d. ... vegna ávanalyfja, sem læknar ávísa

Sögnin biðja beygist eftir sterkri beygingu (biðja-bað-báðum-beðið) og er beyging hennar og notkun í föstum skorðum. Umsjónarmann rak í rogastans er hann las eftirfarandi: Milljónir manna út um allan heim [um heim allan] biðu [báðu] fyrir páfa, krupu, lutu höfði og kveiktu á kertum (Mbl. 2.4.2005). Trúlega er hér um pennaglöp eða prentvillu að ræða.

Öðru máli gegnir um sögnina mara. Þátíðarmynd hennar er oftast maraði en einnig marði. Nútíðarmyndin er jafnan marir en myndinni marar bregður einnig fyrir: dúkkan marar [marir] í hálfu kafi (Fréttabl 4.1.2005). Ástæða þessa er sú að fjölmargar veikar sagnir hafa ar-endingu í nútíð en miklu færri hafa ir-endingu. Þeirrar tilhneigingar gætir stór flokkur gleypi lítinn og þess vegna er málnotkun stundum á reiki, t.d. er ýmist sagt e-ð trónir eða e-ð trónar og e-ð dugir (fornt) eða e-ð dugar (18. öld).

Í Píslarsögu sinni kemst Jón þumlungur Magnússon skemmtilega að orði: sannleikurinn marir í miðju kafi og veitir hvorki upp né niður. Í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru tilgreind nokkur dæmi um myndina marar, þau elstu frá fyrri hluta 20. aldar. Umsjónarmanni virðist upphaflega beygingin (marir) í góðu samræmi við merkinguna (ástandsmerking) og sú mynd ein er honum töm. 

Sagnarsambandið brjóta e-n á bak aftur er eldfornt í íslensku. Atviksorðið aftur vísar hér til stefnu ‘til baka’ og stendur hér aftast (á eftir forsetningarliðnum (á bak)) í samræmi við forna orðaröð sem haldist hefur í ýmsum föstum orðasamböndum, t.d.: rekur Brúsa að bálkinum og brýtur hann þar um á bak aftur, sbr. einnig ummæli Sigurðar Jórsalafara við Eystein bróður sinn: Mantu eigi það er eg braut þig á bak ef eg vilda og vartu vetri eldri. — Við skulum fyrir alla muni halda því óbrjáluðu sem við höfum tekið við og forðast eftirfarandi: berja [brjóta] uppreisn á bak aftur (Útv. 1.4.2005).

Talsverður munur er á nafnorðunum spurn og eftirspurn. Um þennan mun má fræðast í orðabókum en einfaldast er þó að leita í huga sér, vísa til eigin málkenndar. Nafnorðið spurn er t.d. notað í dæmum á borð við: hafa spurnir af e-u/e-m (‘frétta af e-u/e-m’); mér er spurn (‘ég spyr’) og halda upp spurnum um e-n (‘spyrjast fyrir um e-n’). Nafnorðið eftirspurn er notað með allt öðrum hætti enda er merkingin önnur. 

Því hefur verið haldið fram að forðast beri tvítekningu á liðnum eftir í orðasambandinu eftirspurn eftir e-u og því beri að segja (og skrifa) spurn eftir e-u. Umsjónarmaður á allmörg slík dæmi í fórum sínum (öll úr nútímamáli), t.d.: spurn eftir sviðum hefur minnkað (‘dregið hefur úr eftirspurn eftir sviðum’) (Sjónv. 16.3.2005) og Kaupmenn hafa orðið varir við minni spurn eftir þorski (Mbl 19.8.2004). Slík málbeiting styðst ekki við málvenju né á hún sér stoð í málkerfinu því að dæmi um slíkar ‘tvítekningar’ eru ótöluleg t.d.:

  • aðför að e-m
  • atlaga að e-u
  • hafa áhuga á e-u
  • eiga ítök í e-u
  • meðmæli með e-m
  • umsókn um e-ð

Hætt er við að ýmis dæmi yrðu snautleg ef þau yrðu stýfð til að forðast ‘tvítekningu’. Í Predikaranum segir t.d.: allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi (1, 14; 2, 11). Hér sem endranær fer best á því að fara eftir málvenju.

Flest orð í íslensku velja sér förunauta ef svo má að orði komast og menn vita hvaða orð eru notuð saman og hver ekki. Eitt þessara orða er nafnorðið ansi, kk. [stytting úr andskoti eða ansvíti < andskoti + helvíti], oft notað atvikslega. Það hefur jafnan neikvæða vísun, t.d. e-ð er ansi erfitt eða ansi torskilið, en þó er oft einnig talað um að e-ð sé ansi skemmtilegt. Það er reyndar svo að erfitt getur verið að afmarka notkun einstakra orða með óyggjandi hætti, svigrúmið er talsvert, og hver getur dæmt fyrir sig.

Umsjónarmaður hefur ekki vanist því að maður sé ansi glaður né að matur sé ansi góður.

Úr handraðanum

Að réttu lagi: Merking nafnorðsins lag er afar margbrotin. Í fornu máli er algengt að lag merki ‘verð; það verð/fé sem er lagt á e-ð (varning, söluvöru)’, t.d.: gjalda ... að því lagi (‘samkvæmt því verði’) allt sem getur að kaupa með vaðmálum; [þeir] lögðu lag á varning; reiknast svo mikið ... að fornu lagi; [jörð] nærri lagi fullum peningum bítöluð (‘borguð, greidd’); Ei hygg eg fjarri lagi vera [um landskuld]; um verkmanna­kaup ... lag á slætti; galt nærri lagi fyrir það og selja ... eftir gömlu lagi.

Í framangreindum dæmum er grunnmerking nafnorðsins lag ‘verð (sem lagt er á e-ð)’ og er bein merking orðasambandanna nærri lagi og fjarri lagi því ‘nálægt réttu verði’ og ‘fjarri réttu verði.’ Óbein eða yfirfærð merking lags í slíkum samböndum er hins vegar ‘(réttur) háttur,’ þ.e. fjarri lagi ‘fjarri réttu verði’ > ‘fjarri réttum hætti.’ Merking stofnorðsins lag hefur síðan bliknað eða hún orðið ógagnsæ og þá skapast svigrúm fyrir ýmsar hliðstæður, t.d. í meira lagi (16. öld), að fullu lagi (16. öld) og í minna lagi (16. öld).