Textaleit í útdráttum
Leita í textum Íslenska málfrćđifélagsins    Leita í öllu efni á Kvisti


Pistlar um íslenskt mál:   30. október 2004

Jón G. Friđjónsson

Íslenskt mál - 39. ţáttur

Íslenskt mál - 39. þáttur

Það er alkunna að ensk tunga hefur mikil áhrif á íslensku. Áhrifanna gætir með ýmsum hætti. Eitt þeirra orðasambanda sem rekja má til ensku er koma út úr skápnum (e. come/be out of the closet).

Í ensku er merkingin sú að sá sem kemur út úr skápnum segir öðrum að hann sé samkynhneigður eftir að hafa haldið því leyndu. Í íslensku var orðasambandið notað með svipuðum hætti og í ensku en nú bregður svo við að það er notað í merkingunni ‘láta skoðun sína í ljós; sýna sitt rétta andlit; koma fram’, t.d.:

 • ráðherrann verður að koma út úr skápnum og tjá sig
 • [Skjár einn] kom rækilega út úr skápnum síðast liðið vor þegar Egill Helgason var flæmdur burt af stöðinni (10.7.04)
 • Guðfræðin kemur út úr skápnum (25.8.03)
 • [Mogginn] kom út úr skápnum og fór að púsla saman greinum í leiðara sína (7.7.04).

 

Umsjónarmaður kann þessu illa og telur að í þessu efni sem öðrum sé best að saman fari kall og kýll, hið enska orðasamband hafi verið fengið að láni ásamt merkingunni.

Í íslensku skiptir fallstjórn og beygingar miklu máli og nauðsynlegt er að samræmis sé gætt um tölu og kyn. Með fallorðum í fleirtölu er jafnan notuð fleirtölumynd sagna og öfugt. Umsjónarmaður hefur lengi fengist við að kenna íslensku og minnist þess ekki að nauðsynlegt hafi verið að fjalla sérstaklega um jafn sjálfsagða hluti sem þessa.

En nú er öldin önnur.

Í dagblöðum og fjölmiðlum úir og grúir af dæmum þar sem reglur um samræmi eru brotnar. Til að sýna hvað við er átt skulu nokkur dæmi tilgreind, innan hornklofa eru réttar myndir tilgreindar með feitu letri:

 • Það voru hins vegar ummæli NN ... sem fór [fóru] fyrir brjóstið á ... (10.7.04)
 • Um tíu manna hópur [hópi] lögmanna finnst NN ekki njóta sannmælis (25.9.04)
 • Hönnuður hússins ... sagðist ekki kunnugt [sagði að sér væri ekki kunnugt] um málið (7.7.04)
 • sænskur póstpoki [sænskum póstpoka] með gínu ... var varpað í fjöruna (3.8.04)
 • Fjórðungur íslenskra karla ... stunda [stundar] enga reglulega líkmsþjálfun (10.6.04)
 • Hætt er við að sá árangur [þeim árangri], sem náðst hefur ... sé stefnt í voða (22.1.04)
 • Fjölskyldur þeirra beggja voru viðstödd [viðstaddar] brúðkaupið (22.1.04)
 • Stúlkan [Stúlkunni] sem varð fyrir voðaskoti ... líður vel (8.1.04)
 • Togarann Ingimund [Togarinn Ingimundur] SH 332 tók niðri á grynningum í mynni Grundarfjarðar (13.3.04).

 

Dæmi þessi eru nánast fráleit að mati undirritaðs. Talar fólk virkilega svona? Ég held ekki, ætli hér sé ekki fremur um hroðvirkni að ræða en almenna málbeitingu. Hvernig sem því er háttað er ljóst að dæmi sem þessi samræmast á engan hátt málvenju og eðlilegt er að gera þá kröfu til þeirra er rita í dagblöð eða koma fram í ljósvakamiðlum að þeir vandi sig og láti ekki slíkt frá sér fara og sama á reyndar við um prófarkalesara.

Það má gjarna koma fram að umsjónarmaður telur að málfar í Ríkisútvarpinu (og Textavarpinu) sé jafnan til fyrirmyndar og að þar á bæ hafi menn mikinn og eðlilegan metnað til að vanda málfar og framsetningu í hvívetna. En hér á þó við hið fornkveðna: Skýst þótt skýr sé, mönnum getur skotist eða orðið á mistök.

Nýlega heyrði ég að í útvarpsfréttum var talað um ?fund undir luktum dyrum. Satt best að segja taldi ég að mér hefði misheyrst. Mikil var því undrun mín er ég las eftirfarandi í textavarpinu: ?segir aðeins að reglur um fundi undir luktum dyrum gildi í þessu máli (Txt, 20.9.04). Hér er málum blandið. Oft er talað um fund fyrir luktum dyrum eða fund á bak við luktar dyr en eftir því sem ég best veit er ekki unnt að halda fund undir luktum dyrum.

Það getur verið gaman að velta fyrir sér og reyna að finna skýringu á nýmælum sem fram koma í málnotkun en hér er umsjónarmaður mát.

Oft er talað um eða kvartað undan málfátækt. Orðið er reyndar ekki að finna í orðabókum en merking þess og vísan er augljós. Það má t.d. kalla málfátækt þegar sí og æ er klifað á sömu orðunum og þau notuð í stað annarra.

Dæmi af þessum toga er sögnin að minnka (einnig stækka) en hún er að mati undirritaðs alloft ofnotuð. Ég las það í blaði (23.7.04) að forsætisráðherra Bretlands hefði hug á að ?minnka drykkjuhraða Englendinga og í Kastljósi (7.7.04) var talað um að ?stækka ágreining í stað þess að minnka hann.

Af sama toga eru önnur dæmi sem umsjónarmaður hefur rekist á:

 • ?minnka hættuna á stríði
 • ?minnka ökuhraðann
 • ?minnka neyslu eiturlyfja
 • ?minnka völd ráðherra
 • ?minnka fátækt á Íslandi
 • ?minnka auglýsingar


Ætla má að flestir kysu fremur að nota hér aðrar sagnir, t.d.

 • draga úr e-u
 • vinna gegn e-u
 • sporna gegn e-u

 

Úr handraðanum

Í 28. pistli gerði undirritaður orðasambandið far vel Frans að umtalsefni og hvatti þá lesendur sem kynnu skil á því til að skrifa þættinum. Viðbrögð við kvabbinu voru reyndar engin enda kannski ekki við þeim að búast á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því pistillinn birtist.

Hitt er einkennilegt að umsjónamaður skyldi ekki strax muna eftir því að þessi kveðja á rætur sínar í Þjóðsögum Jóns Árnasonar en þar segir (2. bindi, bls. 517, 1. útg.):

Sama hugsun kemur enn oft fram í mæltu máli, þegar menn skilja í styttingi og gefa þeim, sem burtu fer, vegabréf með þessum ummælum: >Farðu til fjandans og þaðan í verri stað=; og enn eru slíkar bænir hafðar með ýmsu öðru móti, t.d.: ‘Farðu norður og niður,’ eða: ‘Far vel Frans; / og kom aldrei til Íslands.’

Eins og sjá má er orðasambandið Far vel Frans hér notað í merkingunni ‘farðu til fjandans, farðu norður og niður’. Tvö dæmi í seðlasafni Orðabókar Háskólans eru mun yngri en tilvitnað dæmi og því verður að álykta þau vísi til þjóðsagnasafnsins.

Morgunblaðið, 30. október 2004